Enn á ný sýnir tollgæslan á Seyðisfirði góða takta og nú náði hún 12 kílóum af amfetamíni sem tveir Litháar reyndu að smygla fyrir einhverja dópmafíuna sem hér hefur komið undir sig fótunum.
Oft er miðað við að 5% af öllu dópi náist sem smyglað er. Þegar um svona stóran fund er að ræða verður þó að vona að sú tala eigi ekki við um Ísland.

Annars á amfetamín sér sérstaka sögu og var lengi vel notað í hressingarskyni af bæði lærðum og leikum. Það var fáanlegt í apótekum á Íslandi fram um miðja öldina og þá sögu heyrði ég eitt sinn að virtur núlifandi rithöfundur af eldri skólanum hefði hætt að skrifa þegar það var gert lyfseðilsskylt. Á sólarströndum Spánar átu menn það svo fram undir aldamótin til þess að halda sér vakandi við drykkju á ódýrum vínum til að spara sem mest og skemmta sér sem ,,best“.

Gamla orðtækið er enn í fullu gildi: „Speed kills“.