Nafn við hæfi

31.7.2006

Stundum heita staðir nöfnum við hæfi. Utanaðkomandi finnst stundum staðurinn Sirkus minna á slakt hringleikahús og eigandi Goldfinger virðist hafa fingur úr gulli – eða er það kannski bara fingurgull. Austur á Selfossi er svo staður sem ber nafn með rentu. Pakkið í bænum kemur saman á búllunni Pakkhúsið.

Tónleikar Sigur Rósar á Klamratúni í gærkvöldi tókust mjög vel og 15.000 manns nutu þeirra í rólegheitum og án vesens. Sama var uppi á teningnum í Fjölskyldugarðinum í fyrra þegar þúsundir mættu til að hlýða á Stuðmenn. Hvers vegna virðist þá ekki vera hægt að stefna fólki saman án ofdrykkju, barsmíða og ofbeldis af öllu tagi eins og gerist um hverja verslunarmannahelgi, þjóðhátíð eða bara í miðbænum um helgar? Skiptumst við Íslendingar í annars vegar þjóð og hins vegar óþjóðalýð og er skiptingin svona einföld, Sigur Rós/Stuðmenn eða Í svörtum fötum/Á móti sól?

Ísraelsmenn hafa á ný heiðrað minningu fyrsta kraftaverks Jesú Krists í Kana með því að gera loftárásir á almenna borgara þar í annað sinn á áratug. Árið 1996 voru gerðar mjög harðar loftárásir á byggingu SÞ og rúmlega hundrað mannns myrtir. Nú hafa þeir endurtekið leikinn og tugir karla, kvenna og barna liggja í valnum. Í bæði skiptin hafa Ísraelsmenn sagst hafa gert árás á Hizbollah og að borgararnir hafi bara verið „hliðarafli“.
Bæði SÞ og Amnesty International rannsökuðu málið 1996 og komust að því að um viljaverk hefði verið að ræða. Fyrstu fréttir benda til að svo sé einnig nú.
Þeir kristnu menn sem endilega vilja hafa trúmál inni í þessari jöfnu ofbeldisverka fyrir botni Miðjarðarhafs ættu að íhuga betur hverjir samherjar þeirra þar eru.

Uppeldissonur forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra til langs tíma hefur tekið það að sér að leiða hóp óróaseggja við að meina fólki aðgang að upplýsingum sem eru opinberar lögum samkvæmt. Það er alltaf gaman að róttæku fólki sem grípur til sinna ráða…
Slagorðið hjá SUS er: Hættum að snuðra í einkamálum annarra en ungmennasamtök flokksins sem hefur stjórnað landinu nær samfleytt síðan 1961 virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að eitt af helstu verkefnum stjórnvalda er einmitt að snuðra í einkamálum fólks.
Forsætisráðherra gæti t.d. litið til föðurlands síns en þar er hægt að nálgast á Netinu upplýsingar um tekjuskattsgrunn fólks, álagðar tekjur og skatta til þriggja ára (sjá t.d. Adresseavisen).

Þessi veröld!

27.7.2006

Við buðum Chester kanadískum vini okkar í mat í kvöld. Með í för voru systir hans og dóttir 11 ára. Systirin býr í Montreal í næstu götu við Leonard Cohen en hafði aldrei heyrt lagið „Leaving Green Sleeves“ af plötunni New Skin For The Old Ceremony svo ég skellti henni á fóninn. Þá varð dóttir Chesters alveg gáttuð. Hún hafði nefnilega aldrei séð plötuspilara.
Er heil kynslóð að missa af töfrum hljómplötunnar?

Fyrir mörgum árum þýddi ég frétt þar sem ákafur fréttamaður spurði útlending sem lent hafði í hremmingum á Íslandi: „Did you be afraid?“
Af skömmum mínum lét ég engan vita og fréttin rúllaði út með spurningunni. Það tók enginn á fréttastofunni eftir villunni!

Þegar maður heyrir orðið betl koma fyrst upp í hugann myndir af fólki á borð við manninn á myndinni hér við hliðina. Það á þó ekki við um Smáralind en þangað villtist ég í dag, illu heilli. Ég eigraði þar um á meðan konan var í búð og á fimm mínútum komu tvær stelpur á 11-13 ára aldrinum (báðar með vinkonu sér við hlið) til mín til að betla peninga. Ég trúði ekki mínum eigin augum.
Það þarf að taka á þessu áður en lengra er gengið. Vel klæddar smástelpur eiga ekki að ganga að ókunnum körlum (eða neinum öðrum) og biðja um peninga í verslunarmiðstöðvum þar sem allt er til sölu.

Bókmenntaáhugi minn var mikill hér á árum áður og lengi var ég alæta á ritað mál af öllu tagi. Ólst reyndar upp á bókasafni. Með árunum hefur þó áhuginn á skáldverkum farið minnkandi jafnframt því sem áhuginn á fræðslu og upplýsingum af öllu tagi eykst. Er það vegna þess að mér er að daprast hugmyndaflugið eða hef ég gert mér grein fyrir því að raunveruleikinn verður alltaf lygilegri og ótrúlegri en nokkur fantasía getur orðið?

Hvað fer fyrst?

22.7.2006

Innrás Ísraelsmanna í Líbanon er hafin. Þeir byrjuðu á því að umkringja eftirlitsstöð SÞ og sprengja upp farsíma- og sjónvarpsmöstur. Það er eins og venjulega, stríðsmenn sætta sig ekki við opna fréttamiðlun, óheft fjarskipti og athygli utanaðkomandi.

Hvað bar hæst?

22.7.2006

Í vikunni var blásið til stríðs Ísraelsmanna gegn Líbanon. Við Jövu varð jarðskjálfti upp á 7,3 stig á Richter og 500 manns hið minnsta fórust í hamfaraflóðbylgju auk þess sem mikið eignatjón varð. Norður-Kóreumenn valda ugg vegna eldflaugatilrauna sinna og 500 manns fórust í flóðum í Kína.
Íslenskur stjórnmálamaður svarar aðspurður um hvað bar hæst: ,,Gerðist eitthvað í vikunni sem leið?“