Ég rakst nýverið á merka grein um sögu kornflexins sem fagnar aldarafmæli um þessar mundir. Það var búið til með það fyrir augum að koma í stað kynlífs en höfundur þess John Harvey Kellogg hræddist ekkert meira en það. Sem dæmi um það má nefna að í 40 ára hjónabandi hafði hann aldrei samræði við konu sína heldur ættleiddu þau öll sín börn, 42 talsins.

Kellogg var sérstaklega illa við sjálfsfróun og gaf foreldrum mörg góð ráð um hvernig þeir ættu að koma í veg fyrir hana hjá börnum/sonum sínum. Hann lagði meðal annars til að óforbetranlegir sjálfsfróarar skyldu umskornir án deyfingar!

Slagorð Kelloggs var: "Heilbrigð sál í hraustum líkama og ekkert kynlíf", kornflexið átti að bæta það allt upp. Það verður því með hálfum huga að ég helli því á diskinn minn í fyrramálið, jafnvel þótt um Special K sé að ræða.

Það er nauðsynlegt að fylgjast með fréttum úr viðskiptalífinu. Ég sá það í Fréttablaðinu í morgun að nú er verið að opna þriðju verslunina með hjálpartæki ástalífsins í Reykjavík 101 og allt ku leika á reiðiskjálfi í bransanum. Nærföt, rafhlöður og græjur af öllum stærðum og gerðum eru á tilboði og væntanlega verður opið allan sólarhringinn. Til viðbótar við 10-11 0g 11-11 er nú komið 6-6. Sniðugt á Íslandi…

SMS-einelti

12.6.2006

Vinkona mín ein er lögð í SMS-einelti. Hún fær margoft á dag alls konar truflandi skilaboð og leiðindi á SMS í símann sinn sem hún notar í atvinnuskyni. Skilaboðin eru send af heimasíðum Símans og OG Voðafóns og því ekki rekjanleg þótt hana gruni reyndar hvaðan þau eru upprunnin.

Hún reyndi að kæra áreitið með það fyrir augum að stöðva gerandann en þá kemur í ljós að það er ekki ólöglegt að áreita fólk með SMS. Löggjafinn "gleymdi" þessum möguleika og því er ekkert til ráða.

Það er með ólíkindum hvað íslenskir embættismenn komast upp með mikla hroðvirkni í störfum sínum. Hagur almennings er fyrir borð borinn, þarna sem svo víða annars staðar, vegna þess að menn eru ekki starfi sínu vaxnir.

All sérstök "íþróttagrein" hefur náð nokkrum vinsældum í nágrannalöndum okkar undanfarið. Hún er fólgin í því að 2-3 taka að sér að berja einhvern saklausan vegfaranda í klessu á meðan félagi þeirra tekur "atburðinn" upp á símann sinn eða aðra myndavél og svo er árásin sett inn á Netið þar sem illgjarnt fólk getur skemmt sér við að sjá náungann þjást.

Í vikunni sem leið lyfti ríkisstjórn Bandaríkjanna þessari grein á alveg nýjan stall með því að sýna okkur nákvæma kvikmynd af loftárás á hús í Írak og síðan var myndum af líkinu dreift til heimspressunnar. Ég held að enginn amatör með farsíma geti slegið þessu atriði við.

En eftir höfðinu dansa limirnir og það verður athyglisvert að sjá hvert næsta skrefið verður í þessu hernaðarlega happy slapping. Verða kannski settar myndavélar inn í klefa fanganna í Guantanamo svo við getum fengið að að fylgjast með "hernaðaraðgerðum" þeirra gegn Bandaríkjunum (eins og yfirmenn þar kalla sjálfsmorðin)?

Íslenskt námsfólk í útskriftarferð í Búlgaríu hefur orðið fyrir óskemmtilegri reynslu ofbeldis og yfirgangs. Þetta er þó því miður engin nýlunda fyrir erlenda námsmenn og annað ungt aðkomufólk í þessum heimshluta, sama hvað ferðaskrifstofumenn segja.

Undanfarin ár hafa borist ljótar fréttir af ofbeldi gegn erlendum námsmönnum í mörgum borgum Rússlands og annarra landa gömlu austurblokkarinnar. Þar fara saman þjóðernisremba, atvinnuleysi, fátækt og skortur á menntun auk þess nýnasisma sem stöðugt verður umfangsmeiri í m.a. þessum samfélögum. Samstarf austur- og vesturevrópskra háskóla er meira að segja sums staðar í hættu vegna þess að námsfólkið er ekki einu sinni óhult á stúdentabæjunum.

Þetta ofbeldi eykst einnig við viðburði sem sérstaklega auka þjóðernisrembuna. Það kom glögglega í ljós þegar því var víða fagnað um Evrópa að 60 ár voru liðin frá lokum síðara heimsstríðs 20. aldar og gott er að hafa í huga að nú er að bresta á HM í fótbolta með tilheyrandi rembu og æsingi.

Það þarf reyndar ekki að fara langt til þess að fá fréttir af blindu ofbeldi og það er langur vegur frá því að menn þurfi að vera yfirlýstir nýnasistar til þess að aðhyllast þá ofbeldisfullu heimssýn sem einkennir allt þeirra æði.

Víti

6.6.2006

Ég sé að menn eru að gera sér rellu út af bölvandi Skagaþjálfara. Fótbolti er þó ekkert pempíusport og kurteisishjal því ekki við hæfi þar. Ég má til með að koma með þá uppástungu að víti sem Skagamenn taka verði héðan í frá kölluð helvíti.

Eftir viku í bakandi sól og 25-30 stiga hita skilur maður ekkert í því hvers vegna þetta virtist spennandi kostur þegar ferðin var keypt. Þegar svo lent er í 7 stigum og sumarrigningu blasir svarið við. Það er samt alltaf gott að koma heim i svalann.

Alicante-borg er skemmtilegri fríkostur en ég hafði búist við, iðandi af mannlífi og fínum veitingastöðum en sómagóð strönd í túnfætinum. Hún jafnast næstum á við Barcelona hvað þetta tvennt varðar og hefur verið sótt heim af Spánverjum til afslöppunar frá alda öðli. Þó hugsa ég að fáir Íslendingar gefi sér tíma þar heldur flýti sér í háhýsabyggðir í Benidorm eða Calpe eða í sumarhús sunnar með ströndinni.

Smáborgin Denía fyrir norðan Alicante var líka skemmtileg og eiginlega undarlegt að íslenskar ferðaskrifstofur skuli ekki bjóða upp á þann kost. Þar hitti ég þó einn landa sem ég þekkti frá fornu fari, Ásmund Guðmundsson kennara, og urðum við báðir hissa.