Dómsmorð!

15.6.2006

Á meðan ég bjó í Þrándheimi á síðari hluta áttunda áratugar aldarinnar sem leið voru tvær ungar konur myrtar á förnum vegi í borginni. Vöktu morðin mikinn óhug. Hinn daufdumbi Fritz Moen var síðar handtekinn, ákærður og fundinn sekur um bæði morðin.

Mörgum þótti vafi leika á sekt hans og var það staðfest síðla árs 2005 þegar allt annar maður játaði á dánarbeði að hafa myrt stúlkurnar. En þá var Fritz látinn eftir rúmlega 20 ára fangelsissetu og of seint að gera neitt nema rétta í málum hans að nýju og lýsa hann saklausan.

Mál þetta er allt með ólíkindum en minnir að sumu leyti á Geirfinnsmál sem hér voru uppi um svipað leyti. Þar leikur þó enn vafi á sekt og sakleysi í hugum margra og lík fundust ekki. Kannski kemur lausn þess máls einnig fram einn góðan veðurdag þegar einhver getur ekki lengur umborið laumuspilið og játar allt, ef til vill á banabeði eins og þrándheimski morðinginn sem ekki aðeins bar ábyrgð á morðum tveggja stúlkna heldur einnig á dómsmorði daufdumbs manns sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér.

%d bloggurum líkar þetta: