Dómsmorð!

15.6.2006

Á meðan ég bjó í Þrándheimi á síðari hluta áttunda áratugar aldarinnar sem leið voru tvær ungar konur myrtar á förnum vegi í borginni. Vöktu morðin mikinn óhug. Hinn daufdumbi Fritz Moen var síðar handtekinn, ákærður og fundinn sekur um bæði morðin.

Mörgum þótti vafi leika á sekt hans og var það staðfest síðla árs 2005 þegar allt annar maður játaði á dánarbeði að hafa myrt stúlkurnar. En þá var Fritz látinn eftir rúmlega 20 ára fangelsissetu og of seint að gera neitt nema rétta í málum hans að nýju og lýsa hann saklausan.

Mál þetta er allt með ólíkindum en minnir að sumu leyti á Geirfinnsmál sem hér voru uppi um svipað leyti. Þar leikur þó enn vafi á sekt og sakleysi í hugum margra og lík fundust ekki. Kannski kemur lausn þess máls einnig fram einn góðan veðurdag þegar einhver getur ekki lengur umborið laumuspilið og játar allt, ef til vill á banabeði eins og þrándheimski morðinginn sem ekki aðeins bar ábyrgð á morðum tveggja stúlkna heldur einnig á dómsmorði daufdumbs manns sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér.

NFS sýndi í gærkvöldi viðtal við Vilhjálm borgarstjóra tekið á leið í vinnuna. Þar kom fram allt það sem fréttamenn erlendis myndu forðast eins og pestina, skráningarnúmer bíls borgarstjóra, heimilisfang hans og geymslustaður bílsins í bílakjallara Ráðhússins. Þetta sýnir vel að hér á landi ríkir ekkert stórborgarmentalítet.

Vilhjálmur hefur yfirgripsmikla og víðtæka þekkingu á sveitarstjórnarmálefnum og það verður mér alltaf hulin ráðgáta hvers vegna flokkseigendafélagið hleypti honum ekki fyrr í forystusæti D-listans í borginni. Þótti hann kannski ekki nógu ofstopafullur?

Vonandi tekst honum að hefja sig yfir pólitískt argaþras og verða borgarstjóri allra Reykvíkinga. Það er að minnsta kosti augljóst að skammaryrðið "pinko" er ekki lengur jafn slæmt í munni hægrimanna og það var hér fyrr meir.