SMS-einelti

12.6.2006

Vinkona mín ein er lögð í SMS-einelti. Hún fær margoft á dag alls konar truflandi skilaboð og leiðindi á SMS í símann sinn sem hún notar í atvinnuskyni. Skilaboðin eru send af heimasíðum Símans og OG Voðafóns og því ekki rekjanleg þótt hana gruni reyndar hvaðan þau eru upprunnin.

Hún reyndi að kæra áreitið með það fyrir augum að stöðva gerandann en þá kemur í ljós að það er ekki ólöglegt að áreita fólk með SMS. Löggjafinn "gleymdi" þessum möguleika og því er ekkert til ráða.

Það er með ólíkindum hvað íslenskir embættismenn komast upp með mikla hroðvirkni í störfum sínum. Hagur almennings er fyrir borð borinn, þarna sem svo víða annars staðar, vegna þess að menn eru ekki starfi sínu vaxnir.

All sérstök "íþróttagrein" hefur náð nokkrum vinsældum í nágrannalöndum okkar undanfarið. Hún er fólgin í því að 2-3 taka að sér að berja einhvern saklausan vegfaranda í klessu á meðan félagi þeirra tekur "atburðinn" upp á símann sinn eða aðra myndavél og svo er árásin sett inn á Netið þar sem illgjarnt fólk getur skemmt sér við að sjá náungann þjást.

Í vikunni sem leið lyfti ríkisstjórn Bandaríkjanna þessari grein á alveg nýjan stall með því að sýna okkur nákvæma kvikmynd af loftárás á hús í Írak og síðan var myndum af líkinu dreift til heimspressunnar. Ég held að enginn amatör með farsíma geti slegið þessu atriði við.

En eftir höfðinu dansa limirnir og það verður athyglisvert að sjá hvert næsta skrefið verður í þessu hernaðarlega happy slapping. Verða kannski settar myndavélar inn í klefa fanganna í Guantanamo svo við getum fengið að að fylgjast með "hernaðaraðgerðum" þeirra gegn Bandaríkjunum (eins og yfirmenn þar kalla sjálfsmorðin)?