Alicante og sólin

6.6.2006

Eftir viku í bakandi sól og 25-30 stiga hita skilur maður ekkert í því hvers vegna þetta virtist spennandi kostur þegar ferðin var keypt. Þegar svo lent er í 7 stigum og sumarrigningu blasir svarið við. Það er samt alltaf gott að koma heim i svalann.

Alicante-borg er skemmtilegri fríkostur en ég hafði búist við, iðandi af mannlífi og fínum veitingastöðum en sómagóð strönd í túnfætinum. Hún jafnast næstum á við Barcelona hvað þetta tvennt varðar og hefur verið sótt heim af Spánverjum til afslöppunar frá alda öðli. Þó hugsa ég að fáir Íslendingar gefi sér tíma þar heldur flýti sér í háhýsabyggðir í Benidorm eða Calpe eða í sumarhús sunnar með ströndinni.

Smáborgin Denía fyrir norðan Alicante var líka skemmtileg og eiginlega undarlegt að íslenskar ferðaskrifstofur skuli ekki bjóða upp á þann kost. Þar hitti ég þó einn landa sem ég þekkti frá fornu fari, Ásmund Guðmundsson kennara, og urðum við báðir hissa.

%d bloggurum líkar þetta: