Með hugtakinu Deus ex Machina er átt við utanaðkomandi æðri kraft sem grípur inn í atburðarás og kemur öllu í besta mögulega lag eftir fum og fát.

Lengi var það svo að tvíflokkurinn fóðraði Seðlabankann með stjórnmálamönnum sem þurfti að sparka upp á við en nú hefur xbvæðingin ehf. sett nýjan snúning á þessa rás og gera á aðra tilraun til að sækja frelsara þangað. Vísmaðurinn Finnur hætti við en ný frelsishetja er mætt til leiks. Guðni hvað?

Knattspyrnan vann

28.6.2006

Tvö stórlið börðust um sæti í fjórðungsúrslitum, Frakkar og Spánverjar. Mikið var í húfi fyrir bæði lið, stolt og fjármunir, en samt gáfu menn sér tíma til að brosa, hver til annars og líka til dómarans sem brosti á móti þótt einu og einu korti væri veifað.

Fín skemmtan og úrslitin voru þrátt fyrir allt sanngjörn en Thierry Henry var rangstæður nær allan leikinn eða þar til hann var tekinn út af með sama fýlusvipinn og hann hafði allt frá upphafi leiks.

Tár & takkaskór

26.6.2006

Ég hélt með Hollendingum í 2 mínútur í gær. Eftir fólskuleg brot á Ronaldo (einkum annað brotið af þremur) þar sem fyrirmælin voru greinilega þau að kippa honum úr umferð snerist mér þó hugur. Hollendingar höfðu slegið (eða sparkað) tóninn og framhaldið varð 90 mínútna stríð. Markið var glæsilegt og það var gott að sjá slátrarana senda heim.

Annars var það ánægjulegasta við fótbolta sunnudagsins að Englendingar skoruðu sitt fyrsta mark á þremur úrslitamótum í HM.

 

Nýjasta vitleysan á HM er sú að hollenskir knattspyrnuáhugamenn eru reknir úr buxunum fyrir leiki og verða að horfa á landsliðið sitt á HM á naríunum! Þeir hafa nefnilega látið sauma á sig sérstakar buxur í appelsínugulum lit með ljónshala (ljónið er þjóðartákn Hollands) – og með auglýsingu fyrir bjórframleiðanda sem ekki tekur þátt í kostun á HM! Og þetta þolir FIFA ekki, það má ekki sjást að fólk drekki "ranga" bjórtegund á leikjum!

Þetta er eins og að mega ekki fara á leik með FH nema með Góusælgæti í höndunum – eða á leik í Garðabæ nema með Stjörnupopp. Hjörðin sem stjórnast af peningum hefur löngum verið fræg fyrir umfangsmikinn skort á kímnigáfu en gengur þetta ekki út yfir allan þjófabálk?

Krúnk, krúnk, Ekvadorar, komið hér,
krúnk, krúnk, ykkur búinn er
Crouch á köldu svelli…

 

Svíagrýlan…

21.6.2006

Svíagrýlan var að sögn tekin af lífi og jarðsett 17. júní í ár. Mér segir þó svo hugur um að hún sé enn "alive and kicking" í Bretlandi.

Að drepa menn

20.6.2006

Það er áhugavert að fylgjast með fréttum af hernaði og þeim orðum sem þar eru notuð. Íslensk blöð sögðu t.d. frá því að al-Zarqawi hefði verið felldur en að bandarískir hermenn hafi verið pyndaðir og myrtir. Allir voru þessir menn þó drepnir í stríðsátökum. Ef fjölmiðlarnir segja með orðavali sínu hvar samúð þeirra liggur er að sjálfsögðu engin sérstök ástæða til að gera athugasemdir við það önnur en sú að benda á að þeim beri að sýna hlutleysi. Hins vegar finnst mér margt benda til þess að þarna sé ósjálfrátt verið að endurspegla framsetningu frétta frá þeim vestrænu hernaðaryfirvöldum sem nú berjast í Írak. Þurfa fréttamenn ekki að taka sér tak við þessar fréttaþýðingar? Er endilega sjálfgefið að það sé betra að drepa araba en vestrænan mann?

Þetta minnir mig reyndar á tvær fyrirsagnir fyrir löngu í Morgunblaðinu sem sýndu ótvírætt hvað fjarlægð og samkennd skipta miklu í fréttaflutningi. Á forsíðu stóð með stríðsletri: MAÐUR FERST MEÐ TRILLU en á bls. 2 var fyrirsögnin KÁTIR KRÓKÓDÍLAR Í ZAMBESI-FLJÓTI. Þar var sagt frá ferju sem sökk með á annað hundrað innfæddra um borð.

Útfall…

19.6.2006

Þetta er dagur útfalls. Heidi fór til Parísar í morgun og ætlar svo áfram til Lyon að vera viðstödd opnunina hjá European Art Quilt Foundation eftir nokkra daga með tvíburunum og foreldrum þeirra í París. Siggi mágur varð okkur samferða en hann er að fara til Toulouse. Á vellinum hitti ég nýgiftan Hemma með myndarlegri stúlku á leið í brúðkaupsferð til Parísar og eftir hádegi fer Atli til Kaupmannahafnar eftir stutt stopp hér heima.

Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga…

 

Dómsmorð!

15.6.2006

Á meðan ég bjó í Þrándheimi á síðari hluta áttunda áratugar aldarinnar sem leið voru tvær ungar konur myrtar á förnum vegi í borginni. Vöktu morðin mikinn óhug. Hinn daufdumbi Fritz Moen var síðar handtekinn, ákærður og fundinn sekur um bæði morðin.

Mörgum þótti vafi leika á sekt hans og var það staðfest síðla árs 2005 þegar allt annar maður játaði á dánarbeði að hafa myrt stúlkurnar. En þá var Fritz látinn eftir rúmlega 20 ára fangelsissetu og of seint að gera neitt nema rétta í málum hans að nýju og lýsa hann saklausan.

Mál þetta er allt með ólíkindum en minnir að sumu leyti á Geirfinnsmál sem hér voru uppi um svipað leyti. Þar leikur þó enn vafi á sekt og sakleysi í hugum margra og lík fundust ekki. Kannski kemur lausn þess máls einnig fram einn góðan veðurdag þegar einhver getur ekki lengur umborið laumuspilið og játar allt, ef til vill á banabeði eins og þrándheimski morðinginn sem ekki aðeins bar ábyrgð á morðum tveggja stúlkna heldur einnig á dómsmorði daufdumbs manns sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér.

NFS sýndi í gærkvöldi viðtal við Vilhjálm borgarstjóra tekið á leið í vinnuna. Þar kom fram allt það sem fréttamenn erlendis myndu forðast eins og pestina, skráningarnúmer bíls borgarstjóra, heimilisfang hans og geymslustaður bílsins í bílakjallara Ráðhússins. Þetta sýnir vel að hér á landi ríkir ekkert stórborgarmentalítet.

Vilhjálmur hefur yfirgripsmikla og víðtæka þekkingu á sveitarstjórnarmálefnum og það verður mér alltaf hulin ráðgáta hvers vegna flokkseigendafélagið hleypti honum ekki fyrr í forystusæti D-listans í borginni. Þótti hann kannski ekki nógu ofstopafullur?

Vonandi tekst honum að hefja sig yfir pólitískt argaþras og verða borgarstjóri allra Reykvíkinga. Það er að minnsta kosti augljóst að skammaryrðið "pinko" er ekki lengur jafn slæmt í munni hægrimanna og það var hér fyrr meir.