Rétta staðan?

9.5.2006

Það er kominn tími til að vera með smávegis trúaráróður á þessari síðu. Hér er hann…

Living With War

9.5.2006

Á nýju plötunni með Neil Young kemur ótvírætt fram að hann er ekki sáttur við stríðið í Írak. Hér má hlusta á hana í straumi.

Hreinn Sveinn

8.5.2006

Það hefur gjarnan þótt vera dæmi um málefnafátækt þegar röklistin fer einkum að snúast um það að hæðast að nöfnum fólks og reynt er að lítillækka það með útúrsnúningum. Nú takast á Hreinn og Sveinn og minna mig á bílnúmerið sem ég sá um árið (HR1SV1). Dagsatt er orðið svolítið sturluð útgáfa af sannleika og ekki má gleyma Jóni Steinari í Hæstarétti sem uppnefndi Illuga fjölmiðlung Illhuga og þótti sjálfum fyndið.

Þetta er nú sjálfstæður málflutningur í meira lagi og verði þeim að góðu.

Pétur Gautur í Kassanum er verulega góð sýning. Ingvar Sigurðsson er náttúrlega yfirburðaleikari en það er í rauninni ekki rétt að draga einhvern ákveðinn út úr hópnum, þau standa sig öll frábærlega vel. Þýðing rennur ljúflega og sviðsetningin er skemmtilega villt. Sem sagt, stórkostleg skemmtun.

Íslendingar eiga það sameiginlegt með ýmsum öðrum að aka yfirleitt einir í bílum sínum. Margir eru greinlega það ósáttir við þennan félagsskap að þeir verða að tala í farsímana sína við vini, kunninga og aðra og þá er ekki alltaf Bluetooth eða þráðleysi fyrir að fara.

Síðdegis í gær (föstudag) sá ég þó alveg nýja útgáfu af þessum sið. Eftir Miklubrautinni nýju nálægt afreininni inn á Bústaðaveg siluðust áfram til austurs tveir bílar og var sá fremri með hinn í drætti. Í þungri föstudagsumferðinni þurftu margir óþolinmóðir að sveifa sér fram hjá þessari tveggja bíla lest við fyrsta tækifæri og var ég einn af þeim.

Ég tók þá eftir því að báðir ökumennirnir voru að tala í farsíma! Ekki veit ég hvort þeir voru að tala saman en þetta var óneitanlega sérstök sjón að sjá þá báða með gemsana við eyrað í hrókasamræðum stofnandi bæði sjálfum sér og öðrum í hættu.

Gúmbolti XXX

3.5.2006

Undanfarið hefur verið háð á götum Reykjavíkur hið merka kappakstursmót Gúmbolti XXX. Þáttakendur eru margir ungir að árum og á kraftmiklum bílum, ýmist í eigin eigu eða foreldranna.

Enn hafa ekki drepist nema tveir en spennufíklar bíða þess með óþreyju að þeim fjölgi. Spennan í mótinu felst ekki síst í því að möguleiki er á að menn verði teknir og sektaðir. Hann er þó fjarlægur og á sér einna helst stað í Sveitabolta XXX sem háður er á þjóðvegum landsins.

Mótið er styrkt af þotuliðinu.