Húmor í Íran

18.5.2006

Það er greinilega meiri húmor í Íran en menn bjuggust við. Hér er mynd af kjarnorkveri þeirra sem nefnist Bush-ehr!

Hrekkjótt dýr #1

18.5.2006

Ljóta hálendið

18.5.2006

Mikið erum við Íslendingar heppnir að eiga allt þetta ljóta land sem Valgerður getur drekkt. Hálendið er allt vaðandi í stórljótum flæmum sem hvergi eiga heima nema undir gruggugu jökulvatni og leir. Í staðinn getur Valgerður reist fallegar álverksmiðjur sem prýða hverja sveit og gera það að verkum að þeir sem aka fram hjá þurfa ekki að horfa á ljótar strandir landsins.

Er í raun þörf fyrir svona lágkúruleg rök til að verja málstað sinn, Valgerður? 

Ég fór að skoða hjólhýsi, húsbíla og tjaldvagna í hádeginu með Bjarka. Þokkalegt nýtt hjólhýsi kostar um þrjár milljónir og ef ég reikna gistinóttina á 10.000 krónur er hjólhýsið 300 gistinætur að borga sig eða 10 til 30 ár, allt eftir því hve mikið fólk ferðast. Við bætist svo rekstrar- og geymslukostnaður auk jafnvel stærri bíls en maður hefur þörf fyrir í raun.

Það er dæmigert fyrir eirðarleysið að þegar fólk er búið að koma sér upp risastóru húsnæði með öllu því dýrindi sem það langar í, með fínum garði með grilli og útimublum, fer það og kaupir sér dós á hjólum til að eyða frístundunum í. Nei, má ég þá heldur biðja um gistingu á huggulegum stað með þeim þægindum sem ég vil hafa og rými til að skipta um skyrtu án þess að reka mig í á alla enda og kanta.

Daginn í dag…

17.5.2006

HURRA FOR 17. MAI!

Ég gekk áðan fram á stöðumælavörð í Hafnarstræti sem var að sekta tröllstóran BMW-lúxusbíl í 10 milljón króna klassanum. Eigandinn gengur víst ekki með neina smámynt í Armani-vösunum.

Þá minntist ég þess að í Finnlandi borga þeir sem teknir eru drukknir undir stýri (stjórnmálamenn sem aðrir) mismunandi háar sektir sem eru hlutfall af mánaðarlaunum þeirra. Væri ekki hægt að taka upp séríslenska útgáfu af því og hafa stöðumælasektir hlutfall af bílverðinu? Til hægðarauka mætti flokka bíla landsmanna í t.d. 4-5 flokka.

Þá gæti það orðið stöðutákn í "Happy Hour" að metast um hver hefði fengið hæstu stöðumælasektina. Það er líklega ekki verra en að metast um hver sé með þann minnsta (hér er vitaskuld átt við gemsa).

XB og lúpínan

15.5.2006

Lúpínan er sérstök jurt. Hún skýtur rótum í örfoka landi og dreifir sér, myndar jarðveg og bindur saman og þegar hún er búin að búa í haginn fyrir annan gróður taka háplöntur við verkinu og lúpínan fer veg allrar veraldar. Hvers vegna finnst mér þessi lýsing minna á sögu Framsóknarflokksins?

Það var ánægjulegt að hitta gamla útskriftarárganginn sinn frá MH á laugardagskvöldið. Glatt og ljúft fólk, vissulega með nokkur ár á herðunum síðan stúdentskollan var sett upp en bros sem nær til augnanna bætir allt svoleiðis upp og meira en það. Sum nöfnin þurfi ég að hafa fyrir því að muna en það er bara eðlilegt.

Myndaserían hans Palla Guðjóns var snilld og gaman að sjá bæði gamla umhverfið sitt og fólkið sem mubleraði það. Júlía með sína þýðu röddu batt það svo allt saman í góða tilfinningu sem lifir lengi með okkur öllum.

Það verður stöðugt betra og betra að tilheyra stelpubekknum. Við Baldur áttum heima þar, hvað sem hver segir! Eini latínubekkurinn í sögu MH að því er ég best veit. Jóka var fjarri góðu gamni hérna megin en ég veit að það er ekki alveg rólegt í kringum hana, hvar sem sálin sú heldur sig í framhaldslífinu. Það verður gaman eftir fimm ár, það er ég viss um.

Silvía Nótt er snilldarlegur tákngervingur íslenska útrásardraumsins. Hún er stóri fiskurinn í litlu tjörninni sem hefur alltaf verið sagt að hún sé svo æðisleg og geti allt svo hún tekur með sér höfuðstólinn sinn (lagið) sem fengið er frá öðrum, skreytir sig með öllum stolnu fjöðrunum sem hún finnur og mætir bara á svæðið eins og besti jakkalakki með tvo fylgdarmenn sem að sjálfsögðu tákna Glitni og KB-banka. Í útlöndum slær hún í gegn  (eins og Pétur Gautur) að eigin sögn og íslenskra fjölmiðla en ýmsu vanir útlendingar líta fyrst og fremst á uppákomuna sem rassaköst í kotrosknum frekjudalli sem veður yfir allt og alla á skítugum skónum því það gleymdist algjörlega að kenna henni mannasiði í öllu lífsgæðakapphlaupinu.

Svo er bara að bíða eftir hruninu mikla þegar Danirnir hefja upp gagnrýnisraust og gengið fer að síga. 

Nú er gaman að vera frá Hvolsvelli 😀 

Þessi færsla er hin fyrsta í flokki orðskýringa sem birtast munu með óreglulegu millibili á þessari síðu. Tekið skal fram að skýringarnar byggjast (að mestu) á hlutlausu mati utanaðkomandi, ekki gildishlöðnum útskýringum fólks sem á hagsmuna að gæta.

Gjörningur er karlkynsorð, notað til að lýsa ómarkvissu örleikriti eftir amatör á leiklistarsviðinu, verki sem fáir skilja en sem vinir og ættingjar mæta á vegna þess að aðgangur er ókeypis og hálfsúrt hvítvín er borið fram á kostnað opinberra aðila.