XB og lúpínan

15.5.2006

Lúpínan er sérstök jurt. Hún skýtur rótum í örfoka landi og dreifir sér, myndar jarðveg og bindur saman og þegar hún er búin að búa í haginn fyrir annan gróður taka háplöntur við verkinu og lúpínan fer veg allrar veraldar. Hvers vegna finnst mér þessi lýsing minna á sögu Framsóknarflokksins?

Það var ánægjulegt að hitta gamla útskriftarárganginn sinn frá MH á laugardagskvöldið. Glatt og ljúft fólk, vissulega með nokkur ár á herðunum síðan stúdentskollan var sett upp en bros sem nær til augnanna bætir allt svoleiðis upp og meira en það. Sum nöfnin þurfi ég að hafa fyrir því að muna en það er bara eðlilegt.

Myndaserían hans Palla Guðjóns var snilld og gaman að sjá bæði gamla umhverfið sitt og fólkið sem mubleraði það. Júlía með sína þýðu röddu batt það svo allt saman í góða tilfinningu sem lifir lengi með okkur öllum.

Það verður stöðugt betra og betra að tilheyra stelpubekknum. Við Baldur áttum heima þar, hvað sem hver segir! Eini latínubekkurinn í sögu MH að því er ég best veit. Jóka var fjarri góðu gamni hérna megin en ég veit að það er ekki alveg rólegt í kringum hana, hvar sem sálin sú heldur sig í framhaldslífinu. Það verður gaman eftir fimm ár, það er ég viss um.