Íslendingar eiga það sameiginlegt með ýmsum öðrum að aka yfirleitt einir í bílum sínum. Margir eru greinlega það ósáttir við þennan félagsskap að þeir verða að tala í farsímana sína við vini, kunninga og aðra og þá er ekki alltaf Bluetooth eða þráðleysi fyrir að fara.

Síðdegis í gær (föstudag) sá ég þó alveg nýja útgáfu af þessum sið. Eftir Miklubrautinni nýju nálægt afreininni inn á Bústaðaveg siluðust áfram til austurs tveir bílar og var sá fremri með hinn í drætti. Í þungri föstudagsumferðinni þurftu margir óþolinmóðir að sveifa sér fram hjá þessari tveggja bíla lest við fyrsta tækifæri og var ég einn af þeim.

Ég tók þá eftir því að báðir ökumennirnir voru að tala í farsíma! Ekki veit ég hvort þeir voru að tala saman en þetta var óneitanlega sérstök sjón að sjá þá báða með gemsana við eyrað í hrókasamræðum stofnandi bæði sjálfum sér og öðrum í hættu.