Það er orðið nokkuð um liðið síðan orðið „utanbæjarmaður“ heyrðist síðast í tengslum við afbrot á Akureyri. Fréttir undanfarið hafa sýnt að heimamenn eru fullfærir um að halda uppi merkjum glæpamanna, sbr. Morgunblaðið í dag:

„Lögreglan á Akureyri er að yfirheyra þrjá menn vegna gruns um alvarlegar líkamsárásir í gær. Klippt var framan af fingri manns með garðklippum og tveir menn aðrir beittir harðræði.“

FH VANN !!!

25.5.2006

Það er alltaf gaman að koma í Krikann. Núna mætti ég snemma til að taka þátt í gleðinni á undan leik. Hafnarfjarðarmafían hélt partí og Halli og félagar tóku nokkur FH-lög. Við Dýri vorum dregnir á svið og sungum með í sænska laginu með textanum hans Gísla (Ég fer á heimavöllinn…) af gömlu FH-plötunni okkar. Það var gaman.

Og svo vann FH Skagann 2-1 og trjónir í afgerandi toppsæti þessa stundina. Það er töggur í strákunum þótt Auðun sé fjarri góðu gamni. Áfram FH !!!

Tull

24.5.2006

Á norsku þýðir þetta orð "rugl". Hér er það ekki notað í því sambandi. Thick as a Brick, Locomotive Breath, Mother Goose og svo framvegis og svo framvegis, sígildum elementum hrært út í og blandan er stórkostlegt kvöld með Ian Anderson og hans liði. Sérstaklega var síðari hlutinn magnaður þótt margt væri líka gott gert í þeim fyrri, ekki síst af Micarelli, magnaðri fiðlustelpu. Og Budapest í lokin, maður, hvað er hægt að biðja um meira?

Þegar símar þingmanna eru hleraðir er það aðeins gert af einni ástæðu, þeir eru grunaðir um landráð. Sú ásökun er með þvílíkum ósköpum að ekki dugar að vísa til þess að dómsúrskurðir séu til fyrir öllu. Það verður að kynna og útskýra þann rökstuðning sem lá að baki úrskurðum svo ekki leiki grunur á að dómstólar hafi verið í vasanum á yfirvöldum sem einskis svifust við að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Það er fánýtt að vísa til þess að einhverjir óskilgreindir "aðrir" hafi líka verið að safna upplýsingum. Það er allt annað mál að forvitnast en að hlera síma í krafti valds síns.

ExB-Ingi lýsti því í þætti Jóns Ársæls í gærkvöldi að hann byrjaði ekki að hugsa fyrr en um kvöldmatarleytið. Hann hlýtur að hafa lagt hótun sína gagnvart Sjálfstæðisflokknum fram fyrri hluta dags, hún bendir a.m.k. ekki til umfangsmikillar heilastarfsemi. Ég held að þetta sé eitt allra ótrúlegasta innleggið í kosningabaráttuna þetta vorið, jafnvel enn skrýtnara en bleiki D-listinn þar sem Gísla Marteini þykir flokkssystir sín menntamálaráðherrann vera getnaðarlegust þingkvenna. Langar hann kannski frekar á þing?

Það er engu líkara en að einungis tveir menn haldi uppi alvöru kosningabaráttu í borginni þessa síðustu viku fyrir kosningar, þeir Illugi Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson, báðir mælskir vel og fínir pennar. Gallinn er bara sá að hvorugur er í framboði!

Hey Lordi Mama!

21.5.2006

Það er búið að bjarga Evróvisjón. Það gerði ekki íslensk hrákasmíð heldur milliþungarokkararnir í Lordi sem skörtuðu meðal annars samahúfu þegar sigurlagið var flutt í lokin. Kúúl…

Heiti þessarar færslu er annars fengið frá Steppenwolf. Kúúúúl…

Nú iðar Evrópa öll í skinninu og bíður þess að haldin verði aðalsýningin á nærfötunum frá Victoria's Secret í Aþenu. Forsýningin var í gærkvöldi.

Það verður reyndar seint sagt um Lordi að þeir hafi skartað undirfötum á sviðinu og gaman var að heyra almennilegt rokk í þessu samhengi, lag sem vottar bæði Alice Cooper og Tom Petty virðingu. Kýlið á það, Finnar!!!!

Aðaldjókið

19.5.2006

Mesti brandari Silvíu Nætur ævintýrisins var sá að einhverjir Íslendingar skyldu í raun halda að hún kæmist áfram í aðalkeppnina. Grínið féll auðvitað algjörlega flatt þarna úti, þetta er eins og að reyna að segja ljóskubrandara á hárgreiðslustofu eða gyðingabrandara í Knesset. Silvía Nótt er engin Björk, hún er ekki einu sinni birki.

Það var annars gaman að heyra Simma kalla sekkjapípuna flautu. Hver laug þessu að honum?

Þetta er hundraðasta færslan mín á Ár & síð og ég ætla að nota hana til að senda bestu kveðjur til lesandans míns sem nú er staddur í Danmörku.