Ein merkilegasta frétt ársins hingað til er af píramídunum í Bosníu, rétt norðan við Sarajevó. Fornleifafræðingur með reynslu frá Rómönsku Ameríku fullyrðir að þar séu þrír ævafornir píramídar huldir jarðvegi og að sá stærsti sé mun voldugri en píramídarnir í Egyptalandi. Nýlega fannst einnig langstærsti píramídi Mið-Ameríku en hann hefur lengi verið álitinn vera hvert annað fjall. Þetta segir okkur að ýmislegt er líklega ófundið á jörðunni og þær fréttir hljóta að vekja með ævintýramönnum hugsýnir um glæst afrek á sviði fornleifafræða.

Ég hef klifið Kukulkan-píramídann við Chichen Itza á Yúkatanskaga í Mexíkó og fylltist lotningu við að sjá þessi ótrúlegu mannvirki genginna þjóða. Er nú enn einu sinni að sannast að mannkyn á sína glæstustu framtíð að baki?

Kirkja eða trú

20.4.2006

Kirkjan hefur þörf fyrir trúað fólk, trúað fólk hefur ekki þörf fyrir kirkju. Engu að síður hefur kirkjan tekið sér alræðisvald yfir söfnuðum manna sem trúa á guð og Jesúm sem spámann hans. Og það sem verra er, kirkjan leyfir sér að hunsa algjörlega óskir safnaðanna.

Fyrir um áratug tók hún af þeim réttinn til að velja sér presta sína og afleiðingin blasir við í dag. Söfnuðirnir fá „sendingar að sunnan“, sendingar sem eru þóknanlegar biskupi og meðreiðarsveinum hans en þeir gefa skít í óskir fólksins. Það verður stöðugt augljósara að skilja þarf að ríki og kirkju, hvorki trúað né vantrúað fólk hefur neina þörf fyrir þessa fasísku stofnun.

Hvernig sefur annars fólk sem stendur í einelti?

Bretar hafa komist að því að samanlögð heildarneysla bresku þjóðarinnar er þreföld meðalneysla Jarðarbúa. Það þýðir með öðrum orðum að þrjá hnetti af stærð Jarðar þyrfti til þess að standa undir því ef allir Jarðarbúar væru jafn neyslufrekir og Bretar. Umræður um orkusparnað og nýtingu voru háværar í því landi nú um páskana.

Fyrir 5-6 árum reiknuðu Norðmenn það út að heildarneysla þeirra væri fjórföld meðalneysla Jarðarbúa og einhvers staðar sá ég að heildarneysla Bandaríkjamanna væri fimmföld meðalneysla Jarðarbúa.

Gaman væri nú ef einhver hagfræðingur með tíma og nennu (t.d. einhver sem nýtir sér sendiþjónustu Íslandspósts og nennir ekki lengur að láta pílur detta á skotskífu, sbr. óvenju bjánalegar auglýsingar þess fyrirtækis) reiknaði út sambærilegan stuðul fyrir Íslendinga. Sú niðurstaða gæti orðið áhugaverð, ekki síst með tilliti til gríðarlegra skulda erlendis.

Undanfarna daga hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum um fína sandinn sem fýkur frá Mongólíu yfir Beijing og nágrenni. Þar fýkur landið burt, sandauðnir stækka og til verður vítahringur sem enginn fær neitt gert við.

Það athyglisverðasta við þessar fréttir fyrir okkur Íslendinga er að því hefur einmitt verið spáð að ástandið geti orðið svipað þessu á Héraði þegar lækkar í væntanlegu lóni við Kárahnjúka á vetrum og undir vor og fínn sandurinn þar þyrlast upp strax og vind hreyfir. Fréttirnar frá Kína ættu að vekja óhug allra sem reynt hafa að afla sér upplýsinga um þennan framtíðarvanda Héraðsbúa og hvernig á að leysa hann. Vísindamenn óttast margir að lausn sé hreinlega ekki til og hvað gera bændur þá?

Golf hefur löngum þótt virðuleg íþrótt sem hæfir heldri mönnum. Bandaríkjaforsetar hafa margir leikið golf og W. Bush stundar það t.d. af miklu kappi.
Frægur er brandari Bob Hope um það sem Ford ætlaði að gera þegar forsetaferlinum lyki: „Hann byrjar á því að setjast niður og skrá það merkasta sem gerðist í embættistíð hans í Hvíta húsinu. Eftir hádegi fer hann svo í golf.“
Eftir byltinguna á Kúbu var Castó boðið til Bandaríkjanna af samtökum ritstjóra stærstu fjölmiðla þar vorið 1960, ekki síst með það í huga að hann gæti rætt við bandaríska ráðamenn og einhvers konar málamiðlun náðst. En Eisenhower beitti sömu aðferð og ýmsir aðrir, lét ekki ná í sig heldur lék golf þá fimm daga sem gesturinn var í landinu. Castró fékk einungis að ræða við Nixon. Átta mánuðum síðar settu Bandaríkjamenn hafnbann á Kúbu og hröktu þjóðina undir hramm Sovétmanna. Framhaldið þekkja allir.

Í lok mars var á þessari síðu aðeins tæpt á væntanlegu stríði Bandaríkjamanna gegn Íran en nú herma fréttir að áætlunin sé tilbúin. Beita á markvissum sprengju- og kjarnasprenguárásum gegn völdum skotmörkum (kannast nokkur við þetta orðalag?) í þeim tilgangi að íranska þjóðin verði svo sárreið valdhöfum sínum að hún setji þá af!!!
Hefur klerkastjórnin í Washington ekkert lært af sögunni? Eru þessir menn ólæsir eða þjást þeir kannski bara af valkvæðu ólæsi? Hvenær í ósköpunum hefur það gerst að árásir erlends ríkis hafi haft áðurnefndar afleiðingar í för með sér? Sagan segir okkur þvert á móti að þannig árás efli samheldni – gegn sameiginlegum óvini. Árás gefur auk þess færi á herlögum og ýmsum öðrum viðbrögðum sem fátt hafa með aukið lýðræði að gera. Hans Blix benti reyndar hér á dögunum á að það er nokkuð öfugsnúin leið að ætla sér að koma á lýðræði með árásarstríði.
Verði af þessu held ég að við Íslendingar getum þakkað okkar sæla fyrir að hafa losnað við herinn frá Keflavík, þá hefur að minnsta kosti fækkað þeim skotmörkum hér á landi sem stuðningsmenn Írans gætu beint spjótum sínum að. Ef ég byggi innarlega við Laufásveg færi ég sennilega að íhuga að flytja þaðan…

Enskur dánardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að breskur kvikmyndagerðarmaður hafi verið myrtur af ísraelskum hermanni fyrir þremur árum. Orðalag fréttarinnar (í Mbl.) er að ýmsu leyti nýmæli. Fjölmiðlar orða það gjarna svo að vinveittir hermenn felli menn en að óvinveittir hermenn drepi en nú er sem sagt búið að staðfesta að hermenn geta myrt á "ólögmætan hátt".

Eftir stendur spurningin: Hvernig myrða ísraelskir hermenn á lögmætan hátt? Þeirri spurningu hefur reyndar verið svarað allt of oft og á óteljandi vegu á undanförnum áratugum.

Sullenberger er orðlaus yfir því að hafa verið ákærður og er sannfærður um að saksóknari hafi verið beittur þrýstingi svo það yrði gert. Hvaðan í ósköpunum skyldi manninum hafa komið sú hugmynd að hægt sé að beita ríkissaksóknara þrýstingi?