DAM-AGE

28.4.2006

Hvenær lýkur öld stíflunnar? Mönnum ber ekki saman um hve lengi Kárahnúkalón verður að fyllast af drullu og aur en nefndar hafa verið tölur á bilinu 50 til 300 ár. Í Skaftárhlaupinu á dögunum hlupu fram þau ókjör af sandi og leðju að gaman væri ef einhver glöggur maður reiknaði út hve mörg þannig hlaup þyrfti til að fylla lónið.

Það eina sem þá gæti komið til bjargar væri að sprungusvæðið undir lóninu myndi gliðna og hleypa drullunni niður en er það ekki of fjarlægur möguleiki til að treysta á?

Er kannski kominn tími til að taka bandstrikið úr titlinum á þessari færslu?

Auglýsingar flokkana í Reykjavík eru eins og varíant af Dressmann-auglýsingu. Sjónvarpsfundir eru þras og gagnkvæmar ásakanir um að allir séu með vitlausar hugmyndir nema maður sjálfur og stærsti glæpurinn er það að skipta um skoðun. Unghani Framsóknarflokksins vitnar vitlaust í fréttatilkynningu andstæðings og notar það til að ráðast á hann. Athyglisvert er svo að sjá ritstjóra Moggans hrósa honum sérstaklega fyrir framtakið, að vitna rangt til orða annarra.

Engar hugsýnir, engin jákvæð sjónarmið á framtíðina í mesta góðæri síðari tíma. Er að furða þótt þjóðin sé ekki uppnumin og finni sér önnur áhugamál en pólitík?