Þegar lagt var af stað með Kárahnúkavirkjun var gert ráð fyrir því að nokkur dauðaslys gætu átt sér stað. Það er til reikningsformúla sem segir að við svona mikið verkefni deyi svo og svo margir og mig rámar í að hafa heyrt töluna fimm í því sambandi.

Nú eru þrír látnir og þeir eru allir Íslendingar. Þetta gerist þrátt fyrir að einungis innan við þriðjungur starfsmanna sé íslenskur. Hvað veldur? Eru Íslendingarnir sendir í hættulegustu verkefnin? Getur verið að Íslendingar séu það kærulausir og óagaðir í störfum sínum að þeir bjóði hættunni heim í meira mæli en reyndir erlendir samstarfsmenn þeirra? Eða kunna Íslendingarnir ekki nógu vel til verka? Þessum spurningum verða stjórnendur Suðurfells og Arnarfells að velta fyrir sér áður en fleiri týna lífinu á hálendinu fyrir austan.