NFS og Framsókn

24.4.2006

Nýlokið er viðræðuþætti á NFS við fulltrúa smáflokkana í Reykjavík, Framsóknar, Vinstri-grænna og Frjálslynda flokksins. Athygli vakti strax í kynningu að tveir fyrstnefndu flokkarnir voru tilgreindir með nafni en ekki sá síðasti. Fyrstu spurningunni var beint til framsóknarmannsins og svör hinna urðu eins konar andsvör við því sem þar kom fram. Fyrirspyrjandi las síðan upp helstu stefnumál Framsóknarframboðsins og bað um lýsingu á fjármögnun en stjórnmálamenn vilja ekkert frekar en þannig tækifæri til að svara í löngu máli og koma að öllum helstu hugðarefnum sínum. Að lokum fékk svo Framsóknarmaðurinn síðasta orðið.

Þetta er hreinlega næsti bær við kranablaðamennsku og ótækt er að bjóða fólki upp á svona framsetningu þáttar þar sem allir flokkarnir eiga a.m.k. í orði kveðnu að hafa jafnan aðgang að því að tjá sig. Það er auðvitað ekkert auðvelt að stjórna þremur atvinnupólitíkusum en þeim mun betri undirbúning og hörku þarf til. Reyndar er gríðarlegur munur á pólitískum umræðuþáttum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum og gaman að sjá hvernig þeir norsku og dönsku kunna t.d. að svara í stuttu máli (annars er orðið tekið af þeim) og hvernig þeir grípa almennt ekki hver fram í fyrir öðrum. En batnandi mönnum er best að lifa, þáttarstjórnandinn er ungur og röggsamur og getur eflaust gert miklu betur en hann sýndi í kvöld.

%d bloggurum líkar þetta: