Ein merkilegasta frétt ársins hingað til er af píramídunum í Bosníu, rétt norðan við Sarajevó. Fornleifafræðingur með reynslu frá Rómönsku Ameríku fullyrðir að þar séu þrír ævafornir píramídar huldir jarðvegi og að sá stærsti sé mun voldugri en píramídarnir í Egyptalandi. Nýlega fannst einnig langstærsti píramídi Mið-Ameríku en hann hefur lengi verið álitinn vera hvert annað fjall. Þetta segir okkur að ýmislegt er líklega ófundið á jörðunni og þær fréttir hljóta að vekja með ævintýramönnum hugsýnir um glæst afrek á sviði fornleifafræða.

Ég hef klifið Kukulkan-píramídann við Chichen Itza á Yúkatanskaga í Mexíkó og fylltist lotningu við að sjá þessi ótrúlegu mannvirki genginna þjóða. Er nú enn einu sinni að sannast að mannkyn á sína glæstustu framtíð að baki?