Bretar hafa komist að því að samanlögð heildarneysla bresku þjóðarinnar er þreföld meðalneysla Jarðarbúa. Það þýðir með öðrum orðum að þrjá hnetti af stærð Jarðar þyrfti til þess að standa undir því ef allir Jarðarbúar væru jafn neyslufrekir og Bretar. Umræður um orkusparnað og nýtingu voru háværar í því landi nú um páskana.

Fyrir 5-6 árum reiknuðu Norðmenn það út að heildarneysla þeirra væri fjórföld meðalneysla Jarðarbúa og einhvers staðar sá ég að heildarneysla Bandaríkjamanna væri fimmföld meðalneysla Jarðarbúa.

Gaman væri nú ef einhver hagfræðingur með tíma og nennu (t.d. einhver sem nýtir sér sendiþjónustu Íslandspósts og nennir ekki lengur að láta pílur detta á skotskífu, sbr. óvenju bjánalegar auglýsingar þess fyrirtækis) reiknaði út sambærilegan stuðul fyrir Íslendinga. Sú niðurstaða gæti orðið áhugaverð, ekki síst með tilliti til gríðarlegra skulda erlendis.