Undanfarna daga hefur nokkuð verið fjallað í fjölmiðlum um fína sandinn sem fýkur frá Mongólíu yfir Beijing og nágrenni. Þar fýkur landið burt, sandauðnir stækka og til verður vítahringur sem enginn fær neitt gert við.

Það athyglisverðasta við þessar fréttir fyrir okkur Íslendinga er að því hefur einmitt verið spáð að ástandið geti orðið svipað þessu á Héraði þegar lækkar í væntanlegu lóni við Kárahnjúka á vetrum og undir vor og fínn sandurinn þar þyrlast upp strax og vind hreyfir. Fréttirnar frá Kína ættu að vekja óhug allra sem reynt hafa að afla sér upplýsinga um þennan framtíðarvanda Héraðsbúa og hvernig á að leysa hann. Vísindamenn óttast margir að lausn sé hreinlega ekki til og hvað gera bændur þá?