Íran og óvinirnir #2

8.4.2006

Í lok mars var á þessari síðu aðeins tæpt á væntanlegu stríði Bandaríkjamanna gegn Íran en nú herma fréttir að áætlunin sé tilbúin. Beita á markvissum sprengju- og kjarnasprenguárásum gegn völdum skotmörkum (kannast nokkur við þetta orðalag?) í þeim tilgangi að íranska þjóðin verði svo sárreið valdhöfum sínum að hún setji þá af!!!
Hefur klerkastjórnin í Washington ekkert lært af sögunni? Eru þessir menn ólæsir eða þjást þeir kannski bara af valkvæðu ólæsi? Hvenær í ósköpunum hefur það gerst að árásir erlends ríkis hafi haft áðurnefndar afleiðingar í för með sér? Sagan segir okkur þvert á móti að þannig árás efli samheldni – gegn sameiginlegum óvini. Árás gefur auk þess færi á herlögum og ýmsum öðrum viðbrögðum sem fátt hafa með aukið lýðræði að gera. Hans Blix benti reyndar hér á dögunum á að það er nokkuð öfugsnúin leið að ætla sér að koma á lýðræði með árásarstríði.
Verði af þessu held ég að við Íslendingar getum þakkað okkar sæla fyrir að hafa losnað við herinn frá Keflavík, þá hefur að minnsta kosti fækkað þeim skotmörkum hér á landi sem stuðningsmenn Írans gætu beint spjótum sínum að. Ef ég byggi innarlega við Laufásveg færi ég sennilega að íhuga að flytja þaðan…

%d bloggurum líkar þetta: