Það er alltaf gaman að koma að Nikulásargjá á Þingvöllum þar sem Íslendingar hafa ástundað peningaþvætti um aldaraðir, nokkuð sem sannar að ekkert er nýtt undir sólinni.

Í dag sást þess þó stað að nýir tímar eru runnir upp í Peningagjá. Einhver hafði ekki verið með neina smápeninga í vasanum svo hann hefur tekið sig til og fleygt debitkortinu sínu í gjána. Framsæknir, Íslendingar 🙂

Í sunnudagsmogganum 30-4-06 er fjallað um Sjónarhól, BUGL og börn með þroska- og hegðunarvanda og athyglisbrest með/án ofvirkni. Þar eru orð í tíma töluð. Um er að ræða gríðarlegt vandamál sem samfélagið verður að bregðast við og gera foreldrum og fagfólki kleift að leysa. Það er óþolandi að ráðamenn skuli komast upp með það á þessum tímum að segja að ekki séu til peningar. Þetta er stærsti einstaki hópur ungmenna í vanda á Vesturlöndum og sá hópur sem minnstu þarf að kosta til á hvern einstakling til að ná góðum árangri.

Það má segja Morgunblaðinu til hróss að það hefur verið duglegt að fjalla um þennan hóp á undanförnum 15 árum eða svo en dapurlegt er að rödd þess skuli ekki hafa náð betur til yfirvalda en raun ber vitni.

Betur má ef duga skal. Setjum ekki börn og ungmenni í vanda á guð og gaddinn!

Fyrir sunnan býr Björn Steinsson á Bóli í Dal. Fyrir norðan býr Aðalbjörn Aðalsteinsson á Aðalbóli í Aðaldal.

Fyrir sunnan tína menn bláber í Dalshrauni. Fyrir norðan tína aðalsmenn aðalbláber í Aðaldalshrauni.

Fyrir norðan starfa verktakar. Fyrir sunnan starfa Aðalverktakar… 

DAM-AGE

28.4.2006

Hvenær lýkur öld stíflunnar? Mönnum ber ekki saman um hve lengi Kárahnúkalón verður að fyllast af drullu og aur en nefndar hafa verið tölur á bilinu 50 til 300 ár. Í Skaftárhlaupinu á dögunum hlupu fram þau ókjör af sandi og leðju að gaman væri ef einhver glöggur maður reiknaði út hve mörg þannig hlaup þyrfti til að fylla lónið.

Það eina sem þá gæti komið til bjargar væri að sprungusvæðið undir lóninu myndi gliðna og hleypa drullunni niður en er það ekki of fjarlægur möguleiki til að treysta á?

Er kannski kominn tími til að taka bandstrikið úr titlinum á þessari færslu?

Auglýsingar flokkana í Reykjavík eru eins og varíant af Dressmann-auglýsingu. Sjónvarpsfundir eru þras og gagnkvæmar ásakanir um að allir séu með vitlausar hugmyndir nema maður sjálfur og stærsti glæpurinn er það að skipta um skoðun. Unghani Framsóknarflokksins vitnar vitlaust í fréttatilkynningu andstæðings og notar það til að ráðast á hann. Athyglisvert er svo að sjá ritstjóra Moggans hrósa honum sérstaklega fyrir framtakið, að vitna rangt til orða annarra.

Engar hugsýnir, engin jákvæð sjónarmið á framtíðina í mesta góðæri síðari tíma. Er að furða þótt þjóðin sé ekki uppnumin og finni sér önnur áhugamál en pólitík?

Þegar lagt var af stað með Kárahnúkavirkjun var gert ráð fyrir því að nokkur dauðaslys gætu átt sér stað. Það er til reikningsformúla sem segir að við svona mikið verkefni deyi svo og svo margir og mig rámar í að hafa heyrt töluna fimm í því sambandi.

Nú eru þrír látnir og þeir eru allir Íslendingar. Þetta gerist þrátt fyrir að einungis innan við þriðjungur starfsmanna sé íslenskur. Hvað veldur? Eru Íslendingarnir sendir í hættulegustu verkefnin? Getur verið að Íslendingar séu það kærulausir og óagaðir í störfum sínum að þeir bjóði hættunni heim í meira mæli en reyndir erlendir samstarfsmenn þeirra? Eða kunna Íslendingarnir ekki nógu vel til verka? Þessum spurningum verða stjórnendur Suðurfells og Arnarfells að velta fyrir sér áður en fleiri týna lífinu á hálendinu fyrir austan.

NFS og Framsókn

24.4.2006

Nýlokið er viðræðuþætti á NFS við fulltrúa smáflokkana í Reykjavík, Framsóknar, Vinstri-grænna og Frjálslynda flokksins. Athygli vakti strax í kynningu að tveir fyrstnefndu flokkarnir voru tilgreindir með nafni en ekki sá síðasti. Fyrstu spurningunni var beint til framsóknarmannsins og svör hinna urðu eins konar andsvör við því sem þar kom fram. Fyrirspyrjandi las síðan upp helstu stefnumál Framsóknarframboðsins og bað um lýsingu á fjármögnun en stjórnmálamenn vilja ekkert frekar en þannig tækifæri til að svara í löngu máli og koma að öllum helstu hugðarefnum sínum. Að lokum fékk svo Framsóknarmaðurinn síðasta orðið.

Þetta er hreinlega næsti bær við kranablaðamennsku og ótækt er að bjóða fólki upp á svona framsetningu þáttar þar sem allir flokkarnir eiga a.m.k. í orði kveðnu að hafa jafnan aðgang að því að tjá sig. Það er auðvitað ekkert auðvelt að stjórna þremur atvinnupólitíkusum en þeim mun betri undirbúning og hörku þarf til. Reyndar er gríðarlegur munur á pólitískum umræðuþáttum á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum og gaman að sjá hvernig þeir norsku og dönsku kunna t.d. að svara í stuttu máli (annars er orðið tekið af þeim) og hvernig þeir grípa almennt ekki hver fram í fyrir öðrum. En batnandi mönnum er best að lifa, þáttarstjórnandinn er ungur og röggsamur og getur eflaust gert miklu betur en hann sýndi í kvöld.

Annað kvöld sýnir sjónvarpið mynd í þáttaröðinni um Jörðina og þar verður fjallað um hella. Í tilefni af því er freistandi að benda á einhvern stórkostlegasta helli sem fundist hefur. Þar má sjá um 30.000 ára gamlar teikningar af ýmsu tagi en þær bestu er gerðar af þvílíkri snilld að áður en þær fundust var haldið að menn hefðu ekki ráðið yfir sambærilegri tækni fyrr en á endurreisnartímabilinu.

Franski hellirinn er auðvitað algjörlega lokaður almenningi en vísindamenn rannsaka hann og eru sífellt að gera nýjar uppgötvanir þar. Það er mjög gaman að skoða þessa glæsilegu heimasíðu og smella á hin ýmsu verk sem þar má skoða. Einkum eru hestamyndirnar stórkostlegar.

Um þessar mundir birtast opnumyndir af glaðbeittum XD-frambjóðendum í Reykjavík með hendur á kafi í vösum. Það er augljóst að þar á ekki að leggja áherslu á athafnastjórnmál!

Ég held að rétt væri að sýna þetta ágæta fólk á einhvern táknrænan hátt með hendur í vösum borgaranna, það væri þó miklu nær raunveruleikanum.