Víðistaðakirkja í Hafnarfirði er um margt merkilegt guðshús. Við kirkjugestum blasa til dæmis miklar freskur Baltasars. En er ég eini maðurinn sem hef tekið eftir því hvað Kristur á altaristöflunni er líkur Barry Gibb úr BeeGees?

Auðvitað er ekki alveg hægt að komast hjá því að myndir sem ráðast með trukki og dýfu á augnhimnur allra heimsbúa finni sér stað í verkum listamanna en samt kom á óvart að finna hann Barry þarna.

Einhver sagði að fúlt væri að skrattinn sæti uppi með alla góðu tónlistina en þarna er aldeilis kominn krókur á móti bragði.

Gaman væri nú ef menn tækju sig nú saman og reyndu að finna fleiri þekkt andlit á þessum freskum. Mér fannst ég til dæmis líka sjá vangasvip fyrrverandi samkennara þar. Og víðar eru listaverk í kirkjum sem gaman væri að horfa á gagnrýnum augum…