Bandarískir sakamálaþættir hefjast ósjaldan þannig að lík finnst og svo fara 43 mínútur (60 með auglýsingum) í að bera kennsl á líkið, finna nokkra sem gætu hafa haft ástæðu til að koma viðkomandi fyrir kattarnef og loks að fletta ofan af þeim seka.
En það er langur vegur frá því að það takist alltaf í raunheimum. Ég sá í kvöld viðtal við réttarmeinafræðing sem starfað hefur í t.d. Rúanda og á Balkan við að bera kennsl á lík úr þjóðarmorðaherferðum í þeim löndum. Nú er hún hins vegar sest að í Bandaríkjunum og hyggst taka til við það að bera kennsl á sem flest af þeim 40.000 óþekktu líkum sem þar hafa safnast fyrir í geymslum og gröfum á undanförnum 30 árum. Og fyrir hvert lík er heil fjölskylda sem syrgir, leitar og vonar…