Íslendingum hefur ávallt þótt erlent hrós gott og það er lapið upp í öllum fjölmiðlum þegar einhver úti í heimi missir eitthvað fallegt út úr sér um landann og basl hans. Það er oft haft til marks um glöggskyggni viðkomandi. En nú hefur það gerst að einhverjir erlendir ómerkingar hafa sagt álit sitt á íslensku hagkerfi. Þetta eru smælingjar á borð við Merrill Lynch, Fitch Ratings, Standard & Poor og Moodys, og nú kemur annað hljóð í strokkinn. Álit eru allt í einu illa unnin, upplýsingar ónógar eða rangar og allt hreinlega er að. Og það sem verra er, í þessu samfélagi væntinga getur svona gagnrýni rifið niður skýjaborgir eins og jarðskjálfti rífur niður hús á Tyrklandi. Hvernig getum við komið þessum gaurum í skilning um íslensku hamingjuvogina?
Og var það ekki einhver íslenskur stjórnmálamaður sem kallaði Dresdner Bank smábanka í Austur-Þýskalandi af því að bankinn sagði eitthvað sem ekki var honum þóknanlegt?

Á Íslandi er nú látið eins og hamingjan hafi verið höndluð í eitt skipti fyrir öll með áli. Þegar ymprað er á því að mögulegt sé að loka verksmiðju Ísal í Straumsvík er forsætisráðherra kallaður til vitnis um að það verði ekki gert.
En víða er verið að loka álverum. Hydro er að loka tveimur í Þýsklandi, Stade og HAW, og þar missa samtals 870 manns vinnuna á einu bretti. Fyrirtækið er auk þess að loka eða draga mjög saman framleiðslu í tveimur álverum í Noregi, Årdal og Høyanger, til að axla samfélagslega ábyrgð vegna mengunar og ekki er langt síðan lokað var í Leeds á Englandi. Það er ekki endilega á vísan að róa.