Árni er góður piltur, held ég, og vildi vel í sínu ráðuneyti með dugandi fólk sér við hlið. En hefði ég þurft að sitja ríkisráðsfundi á milli Björns Bjarna og Halldórs Á. hefði ég líka sagt af mér.

Óskarsverðlaunahafar ársins höfðu greinilega margir lesið ráðleggingar Toms Hanks um þakkarræður. Fáir þuldu langa nafnalista yfir samstarfsfólk af öllu mögulegu tagi heldur reyndu menn að segja eitthvað eftirminnilegt og ótrúlega margir tiltóku móður sína sérstaklega. Feður virðast hafa lítil áhrif á listamenn og er verðugt rannsóknarefni að kanna þau tengsl nánar.
Þátturinn gekk eins og smurð vél en leitt var að margt skemmtilegasta efnið hafði verið klippt út í styttu / ritskoðuðu útgáfunni sem flestir sjá utan Bandaríkjanna. Áhorfendum athafnarinnar hefur að sögn fækkað á heimsvísu vegna þess að svo margar kvikmyndir fjalla um fólk sem hugsar og eru ekki bara hrein aksjón. Það fólk getur þá í staðinn horft á fréttatímana, Óskar frændi heldur sínu striki.