Cohen-aðdáendur muna líklega eftir einni allra bestu plötu meistarans, „New Skin For The Old Ceremony“. Nú er í Listasafni Reykjavíkur sýning eftir John Coplans sem vel gæti borið titil þessa bloggs. Það er eitthvað sérstakt við þessar myndir af líkamshlutum gamals manns sem eru speglaðar en þó ekki. Atarna er harla óvenjuleg útgáfa af þeirri naflaskoðun sem oft einkennir verkin í safninu og má í því sambandi t.d. benda á tötralógíuna „Allt er hey í harðindum“ á 1. hæðinni. – Á opnuninni spurði lítið barn afa sinn um hreyfimyndir á skjá í heysátunni: „Hvað er í sjónvarpinu, afi?“ Afinn hefði vel getað verið barnið úr ævintýrinu um nýju fötin keisarans 60 árum síðar því hann svaraði að bragði: „Ógeðslegt fólk að velta sér upp úr slími.“