Þá er ÓL í Tórínó lokið með glæsibrag en undarlegur er hann þessi ítalski áhugi á diskótímabilinu. YMCA og I Will survive glumdu með miklum tilþrifum á lokaathöfninni og það var líka heilmikið diskó við setninguna. En athafnirnar voru glæsilegar og mikið sjónarspil með búningum og eldglæringum, tónlist og tilþrifum.
Norðmenn eru hundfúlir með árangur sinn á ÓL en Svíar himinlifandi, enda engin furða því ekki hafði verið gert ráð fyrir neinum stórvirkjum af þeirra hálfu. Gull í krullu kvenna, íshokkí karla og nokkrum skíðagreinum komu skemmtilega á óvart og full ástæða til að samfagna Svíunum eins og kóngur þeirra gerði svo eftir var tekið. Norðmenn hugga sig við að skíðaþjálfari Svía er norskur.

En meðal annarra orða, þarf ekki að koma vetrargreinum á borð við handbolta og körfubolta á vetrar-ÓL? Þar eiga þessa greinar heima og myndu líklega vekja meiri athygli heldur en í öllu fárinu á sumar-ÓL.