Tekið á dónunum

22.2.2006

Það er eins og skollin sé á bylgja siðbótar og tiltekar í fjármálum íslenskra stórfyrirtækja. Allir þekkja Baugsmál og grænmetismál, sala Búnaðarbankans virðist hafa verið vafasöm svo ekki sé meira sagt og svo er náttúrulega stóra olíumálið alveg ófrágengið.
Þarf ekki að fara í mál við olíufélögin vegna verðsamráðs þeirra fyrir hönd þeirra sem skulduðu verðtryggð lán? Hvað skyldi þetta samráð hafa haft mikil áhrif til aukinnar verðbólgu þennan áratug og hvað ætli það hafi kostað skuldendur í auknum útgjöldum?
Margt bendir einnig til þess að hafa þurfi mikla gát á þjónustuaðilum í einokunarstöðu. Í Noregi kostar mánaðaráskrift að síma með ótakmörkuðum fjölda símtala innanlands og 100 mínútna samtölum til útlanda 159 NOK sem er lítið meira en fastagjaldið hér sem ekkert er innifalið í. Hér kostar ódýrasta ADSL-áskrift hjá Símanum með ótakmörkuðu niðurhali um 6.000 kr en í Noregi 259 NOK. Aðhalds er greinilega þörf!