Living in Hell

15.2.2006

Breski ljósmyndarinn Tom Hunter tekur uppstilltar ljósmyndir sem byggjast á fréttum og fyrirsögnum úr staðarblaðinu í Hackney þar sem hann býr. Allar hafa þær þó líka tilvísanir í málverk frá ýmsum tímum, bæði þekkt og óþekkt. Ég sá sýningu hans í British Museum um áramótin og þótti mikið til koma.

Enn á ný berast fréttir af skelfilegum pyndingum á írökskum föngum sem virðist hafa verið misþyrmt af einskærum kvalalosta. Á þessu bera allar viljugu ríkisstjórnirnar ábyrgð – og við Íslendingar líka. Eflaust syngja nú einhverjir: „Þetta gátum við ekki vitað.“ Sá söngur heyrðist víða um Þýskaland í lok síðari heimsstyrjaldar en þótti ekki mjög sannfærandi þá – ekki frekar en hann mun þykja nú á þeim slóðum þar sem Írakar eiga samúð þjóða.

Mótmælin gegn skrípamyndunum í JP eru ekkert annað en létt æfing fyrir þá mótmælaöldu sem á eftir að ríða yfir hina viljugu – og þar verða Íslendingar ekki undanskildir. Héðan í frá þýðir lítið fyrir Dani og Norðmenn að þykjast vera Íslendingar í Austurlöndum nær.

Í Mogga dagsins er skammast yfir því að orðið grýttur sé notað um það að vera stoned eða í vímu og einhver þýðandi hundskammaður fyrir. Ég vil bara minna á Bubba…
,,Vegurinn er grýttur, ég er grýttur,
það er rigning og mér líður vel.“