Hvíthöfða ernir

11.2.2006

Á Málbeininu er rætt um þýðinguna á Bold. Áþekk þýðingarvilla hefur riðið húsum hér á landi, líklega vegna Prúðuleikaranna sem spauguðu með tvíræðnina. Heiti hinnar amerísku arnartegundar „Bald Eagle“ er oft þýtt sem skallaörn og hefur sá misskilningur jafnvel ratað inn í orðabækur. Það sér þó hver maður sem vill að örninn er alls ekki sköllóttur heldur er hann hvítur á höfuð eins og enska orðið „Bald“ þýðir jú líka. Orðið þekkist reyndar í íslensku í þessari sömu merkingu en norðausturhluti Langjökuls heitir Baldjökull.

Sylvía Nótt er best heppnaða auglýsingabrella ársins og þjóðin kokgleypir, enda leikkonan býsna snjöll og út undir sig. Það er meira að segja hægt að rífast um hvernig nafnið hennar beygist (?Nóttar? eða Nætur), allt er gert til að halda „bussinu“ gangandi. Og nú fer Ellingsen líklega að auglýsa nóttargagn og Flugleiðir Group fer í kynningarherferðina „Einnar Nóttar Gaman“. Það er gaman að eiga heima á landi þar sem smámál eru stórmál og stórmál smámál.