Den store bolledag

27.2.2006

Sumir Danir eru spenntir fyrir öllu íslensku sem þeim finnst exótískt og framandi. Íslenskt brennivín er að sönnu býsna áþekkt dönskum kúmensnapsi en hákarl og hrútspungar eiga sér enga samsvörun í landi Bauna. Þó tekur steininn úr þegar þeim er sagt frá hinum stóra bolludegi sem í hugum margra íslenskra barna er ein allra helsta kirkjuhátíð ársins. Hvort þar er einhver misskilningur á ferðinni hjá Dönunum skal þó ósagt látið.

Þá er ÓL í Tórínó lokið með glæsibrag en undarlegur er hann þessi ítalski áhugi á diskótímabilinu. YMCA og I Will survive glumdu með miklum tilþrifum á lokaathöfninni og það var líka heilmikið diskó við setninguna. En athafnirnar voru glæsilegar og mikið sjónarspil með búningum og eldglæringum, tónlist og tilþrifum.
Norðmenn eru hundfúlir með árangur sinn á ÓL en Svíar himinlifandi, enda engin furða því ekki hafði verið gert ráð fyrir neinum stórvirkjum af þeirra hálfu. Gull í krullu kvenna, íshokkí karla og nokkrum skíðagreinum komu skemmtilega á óvart og full ástæða til að samfagna Svíunum eins og kóngur þeirra gerði svo eftir var tekið. Norðmenn hugga sig við að skíðaþjálfari Svía er norskur.

En meðal annarra orða, þarf ekki að koma vetrargreinum á borð við handbolta og körfubolta á vetrar-ÓL? Þar eiga þessa greinar heima og myndu líklega vekja meiri athygli heldur en í öllu fárinu á sumar-ÓL.

Fuglaflensan virðist vera í bullandi útrás. Alifuglar víða um heim sýkjast og ef hlutfallslega jafn margir íbúar heims látast í væntanlegum faraldri og í spænsku veikinni 1918 samsvarar það því að allir íbúar ESB myndu láta lífið. Það er ekki sérlega notaleg hugsun. Farfuglar virðast vera aðalsökudólgurinn við að breiða pestina út svo hvernig hefði skáldið haldið áfram þessari vísu núna:
Lóan er komin að… 

Þingsköp?

23.2.2006

Íslenskar alþingiskonur taka nú þátt í uppsetningu á Píkusögum. Vonandi verður það málstaðnum til framdráttar.

Tekið á dónunum

22.2.2006

Það er eins og skollin sé á bylgja siðbótar og tiltekar í fjármálum íslenskra stórfyrirtækja. Allir þekkja Baugsmál og grænmetismál, sala Búnaðarbankans virðist hafa verið vafasöm svo ekki sé meira sagt og svo er náttúrulega stóra olíumálið alveg ófrágengið.
Þarf ekki að fara í mál við olíufélögin vegna verðsamráðs þeirra fyrir hönd þeirra sem skulduðu verðtryggð lán? Hvað skyldi þetta samráð hafa haft mikil áhrif til aukinnar verðbólgu þennan áratug og hvað ætli það hafi kostað skuldendur í auknum útgjöldum?
Margt bendir einnig til þess að hafa þurfi mikla gát á þjónustuaðilum í einokunarstöðu. Í Noregi kostar mánaðaráskrift að síma með ótakmörkuðum fjölda símtala innanlands og 100 mínútna samtölum til útlanda 159 NOK sem er lítið meira en fastagjaldið hér sem ekkert er innifalið í. Hér kostar ódýrasta ADSL-áskrift hjá Símanum með ótakmörkuðu niðurhali um 6.000 kr en í Noregi 259 NOK. Aðhalds er greinilega þörf!

Flestir Íslendingar eru sammála um að ill meðferð dýra eigi ekki að eiga sér stað. En þegar sjónvarpsstöðvunum okkar berst efni um illa meðferð dýra í útlöndum taka þær báðar því fagnandi, birta efnið óstytt og athugasemdalaust og þulirnir brosa og skemmta sér konunglega. Nýjasta dæmið er frétt af ketti sem sýnd var á báðum rásum í kvöld, dýri sem búið er að misþyrma með offóðrun (búlemíu) og hreyfingarleysi árum saman. Vesalings skepnan að hafa ekki átt betri húsbændur!! Þetta er ekkert skárra en myndir af langsoltnum og hröktum hestum sem stundum hafa birst þegar fréttastöðvunum í sínum popúlisma hentar að hneykslast á illri meðferð dýra. Sveiattan…

Jólahugvekjan

20.2.2006

Þeir Gísli Málbein og Dunni (sjá hér til hliðar) hafa verið að rifja upp eitt og annað úr skólastarfinu og þá allt annað en kennsluna (sumir segja að skólar væru yndislegir vinnustaðir ef ekki væru allir þessir nemendur). Ég ritstýrði skólablaðinu Öldubroti og eitt árið kom til starfa bjarteygður og ljóntrúaður kollegi. Ekki var hann settur í hóp jólasveina heldur var nefnt við hann á aðventunni (upp á grín) að skrifa jólahugvekju fyrir Öldubrot. Hann tók ritstjórann á orðinu, settist niður og samdi hörku hugvekju sem skólastjórinn varð alveg gáttaður á, enda aldrei verið um kristilegt efni rætt á ritstjórnarfundum. Í Makkaumbrotinu fannst m.a.s. mynd af jólakerti sem notað var til að fullkomna verkið.

Fugl í hendi

19.2.2006

Fuglaflensan hefur gert að ég hef skipt um skoðun. Ég er orðinn sannfærður um að betri eru tveir fuglar í skógi en einn í hendi.

Þegar búið var að æsa öfgamenn í islamstrúarríkjum Austurlanda nær nógu mikið upp vegna skrípamynda í Jullupóstinum fóru þeir að mótmæla á götum úti, hella niður danskri mjólk og kalla vínarbrauð (Danish pastry) rósir spámannsins.
Þegar Frakkar reittu öfgamenn klerkastjórnarinnar í Washington til reiði með því að draga í efa fullyrðingar um gjöreyðingarvopn Íraka og tóku ekki þátt í innrásinni í Írak brugðust öfgamenn í Bandaríkjunum við með því að mótmæla á götum úti, hella niður frönskum rauðvínum og kalla franskar kartöflur frelsiskartöflur.
Öfgamenn allra landa virðast sameinast um það að búa sér til tákngervinga til að hata og eyðileggja og að vilja ekki kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Um daginn var talað um hvíthöfða erni. Hér er finna m.a. 32 stórglæsilegar ljósmyndir af þessum tignarlegu skepnum með sína hvítu fjaðraprýði á höfðinu.