Fjör-Baugsmiðlar
31.1.2006
Sumum sjálfstæðismönnum hefur orðið tíðrætt um Baugs-miðla og hefur orðið verið notað sem skammaryrði. Nú er Þorsteinn Pálsson tekinn við ritstjórn Fréttablaðsins en hann fékk á sínum tíma pólitískan fjörbaugsdóm og hrökklaðist til Lundúna. Búast má við miklum fjörkipp í pólitískri umræðu á næstunni af þessum völdum og því einboðið að tala um Fjör-Baugsmiðla. Reyndar hefur Mogginn ekki enn birt frétt um þetta (kl. 20.10 þann 31/1) og þar sannast enn að merkilegast er hverju Mogginn þegir yfir en ekki hvað hann segir.
Salman Rushdie
31.1.2006
Þegar Salman Rushdie var lýstur réttdræpur fyrir meint guðlast í Söngvum Satans hneyksluðust margir Vesturlandabúar, ekki síst verjendur ritfrelsis. Nú fá allir hland fyrir hjartað vegna 12 skopmynda sem líklega eru þó samanlagt hvergi nærri hálfdrættingur á við það sem Salman skrifaði. Það hefur augljóslega margt breyst síðan 11. september.
Töfraflautan í Iðnó
29.1.2006
Við sátum og biðum eftir að sýning hæfist. Á næsta bekk ræddi vinahópur hátt saman um Kanaríferð með sól og salmonellu, spítalaferðum og niðurgangi. Skyndilega sagði kona: ,Sýningin er hálfur þriðji tími.´ ,Djísus kræst,´sagði sessunautur hennar.
Svo hófst sýningin og við Íslendingar þurfum greinilega ekkert að óttast, nóg er til af efnilegum söngvurum til að heiðra listagyðjuna í óbyggðum óperu- og tónleikahúsum. Fín skemmtun söngskólanema.
Karíkatúr-krísa
29.1.2006
Helstu bandamenn Bandaríkjamanna í arabaheimum eru Sádar. Danska dagblaðið Jyllandsposten birti í haust nokkrar grínteikningar með Múhammeð spámann sem þema og nú hefur óíslamska nefndin í Sádi-Arabíu ákveðið að vörur á borð við jógurt frá Arla og kubba frá Lego ógni trúnni. Þeir sem eiga slíka vini hafa enga þörf fyrir óvini.
Nina og Frederik
28.1.2006
Vinstri eða hægri
27.1.2006
Um helgina verður prófkjör hjá Framsókn í Reykjavík. Mikið virðist ganga á í slagnum um efstu sætin og reyndar engin furða. Stóri draumur Framsóknarmanna er alltaf sá að komast í oddaaðstöðu eftir kosningar og nú er barist í borginni um það hvort flokkurinn hallar sér til hægri eða vinstri ef hann kemst í oddaaðstöðu í vor. Þess vegna er harkan meiri en oftast áður.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. …
Hér skyldi þó aldrei vera komin enn ein nútímatúlkunin á jólaguðspjallinu frá guðs eigin landi?
Bói vann!
26.1.2006
Bói sonur Distu og Garðars kom skemmtilega á óvart í Meistaranum og vann spurningasérfræðinginn Stefán Pálsson. Gott hjá þér, strákur, nú ætti við að skála í viskíi.
Það er annars alltaf gaman að sjá Stefán í sjónvarpinu í ARDBEG-bolunum sínum en eins og sumir áhugamenn um einmalta viskí vita þá er Ardbeg þriðji framleiðandinn á Isley, við hlið Lagavulin og Laphroaigh. Ardbeg er þó ekki jafn áreiðanlegt og hinar tvær tegundirnar og getur verið mikill áramunur á því. Mókeimur þess er með eindæmum öflugur þegar best lætur.
Leiðin er mörkuð
26.1.2006
Blog – ergo sum. Ég blogga, þess vegna er ég. Eftir öll þessi ár í táradalnum vil ég ekki fá staðfest hér í upphafi árs 2006 að ég sé ekki til. Þess vegna er er ég byrjaður að blogga, þökk sé vinum mínum Dunna og Gísla.
Framtíðin er óráðin
26.1.2006
Einhvern tímann byrja ég að blogga…