Afi kom til Seyðisfjarðar sem erlendur innflytjandi, konan mín er afkomandi innflytjenda og sjálf erlendur innflytjandi og dóttir mín líka, móðursystir mín gerðist erlendur innflytjandi í Bandaríkjunum og giftist dönskum innflytjanda og nokkur frændsystkini mín eru innflytjendur í Danmörku og Svíþjóð.
Systurdóttir mín gerðist innflytjandi til Frakklands, giftist þarlendum manni og á með honum tvö börn og þau eru nú öll innflytjendur á Íslandi.
Auk mín vinna á vinnustað mínum tveir erlendir innflytjendur en sú fjórða þar er dóttir innflytjanda.

Allt þetta fólk hefur lagt mikið af mörkum til þess samfélags þar sem það býr – og nei, ég styð ekki Gústaf Adólf í baráttu hans gegn innflytjendum …

Lúmskasta ritskoðunin snýst um það að gagnrýna fjölmiðil nógu mikið og berja á honum í hvert sinn sem hann flytur frétt sem (oft ofstopafullum) gagnrýnandanum hugnast ekki. Það leiðir oft til þess að sá fjölmiðill fer, meðvitað eða ekki, að beita sjálfsritskoðun að eigin frumkvæði. Gott dæmi um afleiðingar þessa eru fréttir RUV um málefni tengd ESB og umsókninni.

Þjóðin var farin að trúa því að fréttahallinn hjá RU væri gríðarlegur, ESB í hag. Margir tuggðu þetta upp hver eftir öðrum. En svo gerði Creditinfo könnun, að hálfu á tíma fyrri ríkisstjórnar og að hálfu á tíma þeirrar núverandi og sérstaka athygli vekur listi fyrirtækisins yfir þá 8 Íslendinga sem oftast var rætt við. Á tíu mánaða tímabili voru tekin við þá alls 328 viðtöl og þar af voru 285 viðtöl við sjö menn andsnúna ESB en 43 við einn fylgjandi umsókn. Sé utanríkisráðherrunum sleppt, því eðlilegt er að leita til þeirra með ýmsar spurningar, er listinn enn meira sláandi. Þá eru 6 efstu menn á viðmælendalistanum ALLIR andsnúnir ESB og við þá er talað alls 220 sinnum.

Ef þetta er ekki sjálfsritskoðun, þá veit ég ekki hvað hún er.

Vigdís Hauksdóttir neitar því nú sem ákafast að hafa kallað IPA-styrki illa fengið fé. Einfalt er að gúgla ,,illa fengið fé“ og „Vigdís“, þá kemur upp ræða frá Alþingi: Frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.
376. mál [18:46] Hlusta – Horfa Vigdís Hauksdóttir (F), en þar segir m.a.:
„Svo er nú það besta í þessu ferli öllu sem varðar IPA-styrkina að þingmenn Evrópusambandsins hafa gert þær athugasemdir að það sé fyrst og fremst litið á þessa styrki í Evrópusambandinu sem þróunarstyrki, sem fjármagnsaðstoð við umsóknarríki sem standa höllum fæti og eru fjárhagslega illa stödd. Það skiptir greinilega ekki máli fyrir hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að við hrunið var séð til þess að mikilvægar stofnanir voru skornar niður, stofnanir sem eiga að taka við þessum peningum, því að eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði: Hvað er hægt að gera við fjárhagslega hungraðar ríkisstofnanir annað en að dæla inn í þær fé? En því miður er það þannig að þetta fé kemur frá Evrópusambandinu og að vissu leyti má segja að það sé illa fengið fé vegna þess að þjóðin, landsmenn, 65% landsmanna, vilja ekki ganga þessa leið.“

Þöggunin er í fullum gangi.

Í morgun rakst ég í safni mínu á disk sem Glitnir gaf út árið  2003 í tilefni þess að Íslandsbanki og erlendir dótturbankar höfðu sameinast undir hinu nýja heiti. Bjarni Ármannsson skrifar þar ábúðarfullur að hann þykist viss um að starfsemin ,,muni skila viðskiptavinum Glitnis og landsmönnum öllum drjúgum ávinningi og aukinni velgengni í framtíðinni“.

Þeirri framtíðarsýn höfum við kynnst síðan í október 2008.

Það er hins vegar gaman að ráða í lagaheiti disksins og reyna, verandi afar vitur eftir á, að sjá samhengi og forspár. Þar má m.a. finna þessi lög:

Undir þínum áhrifum  – Já, við vorum svo sannarlega undir áhrifum bankans
My Delusions                  – Heiti lagsins segir allt
Full Circle                        – Við erum komin hringinn með gjaldeyrishöftum o.fl.
Pabbi þarf að vinna     – Reyndar bæði pabbi, mamma og allir sem það geta
You Belong To Me         – Rétt, stundum finnst manni bankinn eiga mann.

Ég ætla að geyma þennan disk vel – við hliðina á hlutabréfinu mínu í Landsbankanum gamla.

Ég hef það ekki fyrir venju að tala illa um aðra eða uppnefna og verð að segja að undanfarin ár hef ég stundum verið gáttaður á þeim óhróðri og svívirðingum sem andstæðingar stjórnvalda hafa látið sér um munn og penna fara um bæði einstaklinga þar, stjórnarflokkana og verk þeirra. Auðvitað eru þau umdeilanleg eins og bæði fyrr og síðar en flest eru þau unnið af góðum hug þótt stundum mistakist.

Nú eru hins vegar þeir flokkar sem þetta fólk fylgir komnir í meirihluta og þá bregður svo við að þeir sem áður hneyksluðust á svívirðingum og uppnefnum, ausa þeim nú yfir pólitíska andstæðinga en þeir sem áður jusu, hneykslast á því sama og þeir létu sér sjálfir um munn fara fyrir ekki svo löngu. Gott væri að báðir þessir hópar litu í spegil og sæu samhengið, þeir eru nefnilega að mæta sjálfum sér í dyrunum, eins og Danir orða það svo vel. Já, það er munur á gagnrýni og gaggrýni.

Athyglisvert er að Dönum skuli vera ráðlagt að hætta með húsnæðislán þar sem fólk greiðir bara vexti, engar afborganir („afdragsfri lån“ í allt að 10 ár). Íslensku verðtryggðu jafngreiðslulánin sem flestir taka eru nefnilega einmitt þannig lán og hafa verið í yfir 30 ár. Fyrstu 10 árin eða þar um bil er nær ekkert greitt af höfuðstól þeirra, nær eingöngu vextir (öfugt við lán með jöfnum afborgunum). Ætli þarna sé komin ein ástæða (af mörgum væntanlega) fyrir viðvarandi verðbólguvanda Íslendinga?

Ég varð þess aðnjótandi nú á dögunum að komast til að skoða Þríhnúkagíg nálægt Bláfjöllum. Það er skemmst frá því að segja að það var algjörlega einstök reynsla og sannast þarna að landið okkar býr yfir dulmögnum sem einstök eru. En sjón er sögu ríkari og hér fylgja nokkrar myndir úr gígnum.

Ef smellt er á myndirnar, má fá stærri útgáfur.